English
Á forsíðu RED (lógó)

Forsíða Um RARIK Orkuþróun Verkefni á íslandi Verkefni erlendis Samstarfsaðilar Fréttir

Sjávarorka ehf.

Sjávarorka ehf. er félag sem stofnað var á árinu 2001 til þess að vinna að rannsóknum varðandi möguleika þess að koma á laggirnar sjávarfallavirkjun við Breiðafjörð. Hugmyndin byggir á svonefndum straumhverflum, en slík útfærsla gerir stíflugarða óþarfa og er talin hafa hverfandi áhrif á lífríkið.


Stjórn Sjávarorku ehf. hefur lagt aðaláherslu á að kortleggja það afl og þá orku sem eru í sjávarfallastraumum í innanverðum Breiðafirði. Verkefnið fólst einkum í mælingum á dýpi, straumum og sjávarhæð ásamt gerð straumfræðilíkans af Hvammsfirði. Í þessu skyni voru gerðar nákvæmar dýptarmælingar af Hvammsfirði og sundunum við Stykkishólm. Það sem tafði hins vegar verkið var að ekki reyndist unnt að ná marktækum straummælingum. Hins vegar tókst að ljúka við samræmdar sjávarhæðamælingar á árinu 2007. Í kjölfar þess var unnið að því hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. (VST) að framlengja og kvarða straumfræðilíkanið sem samið var við stofuna að vinna og var því lokið í byrjun þessa árs.


Skýrsla VST um sjávarfallastrauma í Breiðafirði og orkuna í þeim var gefin út í apríl 2008. Helstu niðurstöður eru þær að talið er að heildarhreyfiorka frá botni upp í yfirborð sjávar sé um 1000 GWh/ár og í Röst um 800 GWh/ár. Aðeins lítill hluti hreyfiorkunnar er virkjanlegur. Í þessum 1. áfanga er mat á algeru hámarki á virkjanlegri orku í Breiðafirði því um 650 GWh/ár. Til samanburðar er uppsett afl í Sultartangastöð 120 MW og orkugeta 880 GWh/ár. Nýtingartími sjávarfallavirkjunar er hins vegar mun minni og þyrfti því afl slíkrar virkjunar að vera hlutfallslega meira.


Af niðurstöðum útreikninga í sjávarfallalíkaninu má ljóst vera að orka í sjávarföllum í innanverðum Breiðafirði er mun minni en áður var ætlað. Sjávarfallavirkjun er eigi að síður möguleg í framtíðinni. Ef ráðast á í að virkja sjávarföllin þarf að kortleggja nánar strauma við þá staði sem líklegastir eru taldir fyrir staðsetningu virkjunar með frekari mælingum. Stefnt er að því að finna erlendan aðila sem hefur áhuga á að nýta sér þá aðstöðu og þekkingu sem aflað hefur verið á vegum Sjávarorku ehf.


Sjávarorka sótti um rannsóknarleyfi við Breiðafjörð til að unnt verði að halda áfram þeim rannsóknum sem hófust á árinu 2001. Orkustofnun féllst á umsóknina í janúar 2010. Leyfið var þó takmarkað við svæði innan netlaga auk þess sem ekki voru veitt fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Var sett fram kæra vegna þessa þann 23.febrúar 2010.

 

Stjórn Landsvirkjunar tók þá ákvörðun á miðju ári 2011 um að koma að Sjávarorku ehf. með því að gerast þriðjungs eignaraðili í gegnum hlutafjáraukningu. Þann 30. mars 2012 skrifuðu Landsvirkjun og RARIK Orkuþróun ehf. undir hlutafjáráskrift, þar með eignaðist Landsvirkjun 30,32% hlut í Sjávarorku. Aðalfundur Sjávarorku ehf. var svo haldinn í byrjun maí sama ár þar sem kosið var í nýja stjórn með aðild Landsvirkjunar.

RED | RARIK Energy Development    |    Dvergshöfði 2, 110 Reykjavík    |    Sími: 528 9000    |    Fax: 528 9009    |    info@red.is