English
Á forsíðu RED (lógó)

Forsíða Um RARIK Orkuþróun Verkefni á íslandi Verkefni erlendis Samstarfsaðilar Fréttir

Hólmsárvirkjun

Frá árinu 2002 hafa RARIK ohf. og Landsvirkjun staðið sameiginlega að rannsóknum vegna Hólmsárvirkjunar. Þann 21. ágúst 2009 veitti Orkustofnun fyrirtækjunum rannsóknarleyfi á vatnasviði Hólmsár í Skaftártungu. Leyfið tekur til rannsókna við að kanna hagkvæmi þess að reisa og reka vatnsaflsvirkjun á Hólmsá.
Í árslok 2008 lagði RARIK ohf. aðild sína í undirbúningi að Hólmsárvirkjun inn í dótturfélag sitt RARIK Orkuþróun ehf. (RED). Í samvinnu við Landsvirkjun vann RED að undirbúningi virkjunar Hólmsár í Skaftártungu til janúar 2011 en þá tók Orkusalan ehf. við verkefninu. RED mun eftir sem áður leiða verkefnið á næstu árum a.m.k. á meðan unnið er að mati á umhverfisáhrifum sem og verkhönnun. Með gerð Hólmsárvirkjunar hyggjast Landsvirkjun og Orkusalan ehf. mæta vaxandi orkuþörf í landinu jafnt til almennra nota sem iðnaðar.

 

 

Hólmsá í Skaftárhreppi á upptök sín í Hólmsárbotnum og Hólmsárlóni fyrir sunnan og austan Torfajökul. Áin fellur til suðurs og austurs meðfram Ljótarstaðaheiði og Snæbýlisheiði uns hún sameinast Kúðafljóti í Flögulóni undan Hrífunesi, þaðan rennur hún til sjávar.  Í Hólmsá eru tveir fossar, Hólmsárfoss er 400 til 500 m ofan Atleyjarlóns en fyrir neðan Atley er Hrossafoss. Við Hólmsárfoss hefur Hólmsá og nokkur minni vatnsföll við Hólmsá mjög sterk lindaáreinkenni en neðan við ármóta Hólmsár og Jökulkvíslar breytist áin í Jökulfljót

 

Væntanleg Hólmsárvirkjun verður staðsett í Vestur-Skaftafellssýslu, skammt austan Mýrdalsjökuls. Fall Hólmsár verður virkjað frá Atley og niður að Flöguvelli við Flögulón. Hólmsá verður stífluð við Atley og þannig myndað Atleyjarlón. Úr Atleyjarlóni er vatni veitt um göng í suðaustur að stöðvarhúsi með frárennsli út í Flögulón. Stöðvarhúsið verður neðanjarðar í austurhlíðum Snæbýlisheiðar á milli Hrífuness og Flögu með aðkomu um jarðgöng sem opnast við Hrífunesveg á móts við Skerhól. Reisa þarf vatnagarða á suðvesturhorni Atleyjarlóns til að varna því að það flæði yfir lægðina í stórum flóðum, einnig verða vatnagarðar við Flögulón til að verja lönd Flögu og tjaldstæði í Hrífunesi.

Áhrif Hólmsárvirkjunar á vatnafar mun ná til nánast alls farvegar Hólmsár frá áreyrum neðan við Hólmsárfoss að ármótum við Kúðafljót en virkjunin mun hafa lítilháttar áhrif á rennsli fljótsins til sjávar. Stíflu- og inntaksmannvirki verða í tiltölulega þröngu gili við norðurenda Atleyjar og verða lítt áberandi í landslagi fyrr en komið er á staðinn. Miðlunarlónið mun að mestu fara yfir áreyrar Hólmsár og Jökulkvíslar, það mun ekki hafa nein áhrif á Hólmsárfoss og undirlendi hans en ekki liggur fyrir hversu mikið ásýnd Hrossafoss breytist eftir virkjun Hólmsár.

 

Sá kostur var skoðaður að virkja fall Hólmsár frá Einhyrningshömrum austan við Einhyrning og niður fyrir Bjarnarfoss í Tungufljóti. Umhverfistáhrif við þennan kost eru þau helst að meðalrennsli Hólmsár neðan við inntak virkjunar minnkar um 28m3/s og rennsli Tungufljóts neðan úttaks eykst samsvarandi. Þessi kostur er nú eingöngu til samanburðar þar sem virkjun með miðlunarlón við Atley er álíka hagkvæmur kostur og til muna umhverfisvænni.

 

     Einkennisstærðir Hólmsárvirkjunar m/ miðlunarlóni við Atley

Einkennisstærðir

 Eining

Með miðlunarlóni við Atley

 Meðalrennsli til virkjunar  m3/sek  70
 Fallhæð  m  121
 Yfirfallshæð í virkjun  m.y.s.  172
 Inntakslón  Gl  112
 Uppsett afl  MW  65
 Orkugeta  GWh/ári  480

 

 

 
Skjöl
Drög að tillögu að matsáætlun vegna Hólmsárvirkjunar
Hólmsárvirkjun - Tilhögun og umhverfi
Yfirlitsmynd af Hólmsárvirkjun m.v. miðlunarlón við Atley

RED | RARIK Energy Development    |    Dvergshöfði 2, 110 Reykjavík    |    Sími: 528 9000    |    Fax: 528 9009    |    info@red.is